Gullver NS hefur fiskað vel að undanförnu. Ljósm. Þorgeir Baldursson

Heimasíðan sló á þráðinn til Þórhalls Jónssonar, skipstjóra á Gullver NS, en skipið hefur verið við veiðar við suðvesturlandið að undanförnu. Þórhalliur segir að fiskast hafi vel og það sé glimrandi vertíð í gangi. „Við erum búnir að landa tvisvar fullfermi í Hafnarfirði. Núna erum við að fikra okkur austur með suðurströndinni og stefnum að því að fylla á leiðinni en það vantar ekki mikið uppá. Það er ráðgert að landa í heimahöfn á Seyðisfirði í síðasta lagi á miðvikudag. Við höfum að undanförnu verið að veiðum á Eldeyjarbanka, Selvogsbanka og í Skerjadýpinu og það hefur fiskast vel. Það er glimrandi vertíð í gangi. Við eins og fleiri höfum verið að eltast við ufsa og það hefur gengið svona sæmilega en aflinn er mjög blandaður. Það er nóg af þorski og ýsan er til vandræða, hún er alls staðar. Það er athyglisvert að þó að allir séu á flótta undan ýsunni þá er ekkert bætt við ýsukvótann. Einhverja hluta vegna virðist ganga afar illa að mæla hana og því eru þessi ýsuvandræði til staðar,“ segir Þórhallur.