Gullver NS kemur til löndunar á Seyðisfirði. Ljósm.: Ómar Bogason.Gullver NS kemur til löndunar á Seyðisfirði. Ljósm.: Ómar Bogason.Ísfisktogararnir Bjartur NK og Gullver NS hafa fiskað vel að undanförnu og hafa þeir komið með góðan fisk að landi sem hentar vel til vinnslu. Bjartur landaði 85 tonnum í Neskaupstað sl. laugardag og var uppistaða aflans ufsi sem fékkst á Papagrunni. Að lokinni löndun var strax haldið til veiða og að loknum tveimur sólarhringum á miðunum var 60 tonnum landað í gær. Í það skiptið var uppistaða aflans þorskur sem fékkst á Breiðdalsgrunni og Litla dýpi. Bjarni Hafsteinsson skipstjóri á Bjarti segir að vel hafi gengið að fiska að undanförnu en einnig skipti miklu máli hve fiskurinn er stór og góður sem fæst um þessar mundir. Bjartur mun halda á ný til veiða kl. 10 í fyrramálið.
 
Gullver landaði á Seyðisfirði um 100 tonnum sl. mánudag og var uppistaða aflans þorskur og ufsi. Meirihluti aflans mun fara til vinnslu á Seyðisfirði. Að sögn Jónasar Jónssonar skipstjóra fékkst aflinn einkum í Hvalbakshalli og Lónsdýpi. „Þarna er um mjög fallegan fisk að ræða, einkum er fiskurinn sem fékkst í Hvalbakshallinu stór og góður,“ sagði Jónas. Gullver mun halda á ný til veiða í hádeginu í dag.