Vænt hol komið inn á dekk á Vestmannaey VE. Ljósm. Björn Steinbekk

Vestmannaeyjatogararnir Bergur VE og Vestmannaey VE lönduðu báðir fullfermi síðasta dag aprílmánaðar. Gullver NS kom síðan til heimahafnar á Seyðisfirði með fullfermi í gær. Afli skipanna er blandaður. Bergur hélt strax til veiða á ný að löndun lokinni og landar góðum afla í Eyjum í dag. Afli hans nú er mest ýsa ásamt þorski, löngu og lýsu.

Birgir þór Sverrisson, skipstjóri á Vestmannaey, segir að túrinn hafi verið stuttur eða innan við tveir sólarhringar. „Það er ekki hægt að kvarta yfir aflabrögðunum, það gekk vel að fiska. Við byrjuðum í Háadýpinu og tókum þar fáeinar sköfur en síðan var haldið austur á Ingólfshöfða. Aflinn er mjög blandaður; þorskur, ýsa, steinbítur, koli, langa og lýsa. Það verður farið út aftur á fimmtudag,“ segir Birgir Þór.

Jón Valgeirsson, skipstjóri á Bergi, segir að aflabrögð séu góð um þessar mundir. „Við lönduðum á sunnudaginn fullfermi og aflinn var mjög blandaður. Þá veiddum við í Háadýpinu og Reynisdýpinu. Að lokinni löndum var strax farið út og þá var byrjað suður á Horni og síðan farið á Víkina og því næst á Síðugrunn. Við erum svo að landa nánast fullfermi í dag. Aflinn í þessum seinni túr var mest ýsa ásamt þorski og svolitlu af löngu og lýsu. Það er sko nóg af fiski og ekki erfitt að fá í skipið. Menn verða helst að passa sig á að taka ekki of mikið. Nú verður svolítið slakað á og haldið til veiða á ný á fimmtudag,“ segir Jón.

Steinþór Hálfdanarson, skipstjóri á Gullver, segir að veiðiferðin hafi gengið vel. „Þetta var sex daga túr og aflinn var 116 tonn eða fullfermi. Við veiddum mest í Berufjarðarálnum og Hvalbakshallinu og skruppum reyndar í Lónsdýpið í tvígang. Veðrið var óvenju gott, norðan gola og hið meinlausasta veður. Það verður haldið á ný til veiða í kvöld og uppleggið er svipað og var í þessum túr,“ segir Steinþór.