Ísfisktogararnir Gullver NS, Vestmannaey VE og Bergur VE lönduðu allir fullfermi sl. laugardag. Gullver í Hafnarfirði en Vestmannaey og Bergur í heimahöfn í Vestmannaeyjum. Bergur og Vestmannaey lönduðu síðan aftur fullfermi í Eyjum í gær. Heimasíðan ræddi stuttlega við Þórhall Jónsson skipstjóra á Gullver og Birgi Þór Sverrisson skipstjóra á Vestmannaey. Þórhallur sagði að mjög vel hefði gengið í síðasta túr. “Við vorum að veiðum á Eldeyjarbanka og síðan út á Melsekk í karfa. Við lönduðum síðan 110 tonnum í Hafnarfirði á laugardag. Aflinn var blandaður en mest var af ýsu og karfa. Við héldum síðan strax til veiða á ný. Það hafa komið góð skot þarna en núna er hins vegar miklu minni veiði og þess vegna erum við að færa okkur austur eftir. Við náðum tveimur góðum túrum þarna syðra en nú er þetta orðið gott og við munum halda á okkar hefðbundnu mið eystra,” sagði Þórhallur.
Birgir Þór Sverrisson sagði að það hefði verið hörkuveiði að undanförnu. “Við lönduðum fullfermi á laugardag og aftur í gær og það gerði Bergur einnig. Í báðum túrum fiskuðum við á Síðugrunni og það gekk vel. Við vorum 20 tíma í hvorum túr að fá fullfermi. Versta var að það var snarvitlaust veður í seinni túrnum. Bergur byrjaði reyndar fyrri túinn sinn í Háfadýpinu en síðan var lokað þar og þá hélt hann á Síðugrunn. Þarna á Síðugrunni fékkst mjög góður fiskur, í fyrri túrnum var þetta mest þorskur en ýsa í þeim seinni. Ég geri ráð fyrir að við og Bergur höldum til veiða á ný á sunnudagsmorgun. Á austursvæðinu, þar sem við vorum, verður lokað annað kvöld en á sunnudagsmorgun verður opnað á Selvogsbankanum og þar er örugglega fullt af fiski,” sagði Birgir Þór.