Í fiskvinnlustöð Gullbergs voru unnin um 3.600 tonn á árinu. Ljósm: Ómar Bogason
Í fiskvinnslustöð Gullbergs á Seyðisfirði lauk vinnslu í gær. Nú eru jól og áramót framundan hjá starfsfólkinu í skugga sjómannaverkfalls. Að sögn Ómars Bogasonar hefur fiskvinnslustöðin tekið á móti um 3.600 tonnum til vinnslu á árinu og hefur framleiðslustarfsemin gengið vel, en erfiðar markaðsaðstæður og óhagstæð gengisþróun haft neikvæð áhrif á afkomuna. Mest af aflanum hefur komið frá Gullver NS en eins hefur afli borist frá Vestmannaey VE, Bergey VE og síðan Bjarti NK og Barða NK. Allt árið hefur hráefni verið nægt.
Að sögn Ómars horfa menn björtum augum til nýs árs á Seyðisfirði og vona að yfirstandandi verkfall leysist hið fyrsta.
Rétt er að geta þess að Gullberg ehf. verður sameinað Síldarvinnslunni um áramótin.