Uppsjávarveiðiskip Síldarvinnslunnar, Barði NK, Beitir NK og Börkur NK, hafa haldið til kolmunnaveiða í færeyskri lögsögu. Kolmunninn fer til mjöl- og lýsisframleiðslu og eru fiskimjölsverksmiðjurnar í Neskaupstað og á Seyðisfirði tilbúnar að taka á móti hráefni. Gert er ráð fyrir að verksmiðjurnar taki á móti svipuðu magni af kolmunna og í fyrra. Úthlutaður kvóti til Síldarvinnsluskipanna er 91.500 tonn og auk þess munu verksmiðjurnar taka á móti afla frá öðrum skipum. Í fyrra bárust 120 þúsund tonn af kolmunna til verksmiðjanna, 64 þúsund tonn til Neskaupstaðar og rúmlega 56 þúsund tonn til Seyðisfjarðar. Hafþór Eiríksson, rekstrarstjóri fiskimjölsverksmiðjanna, segir að allt sé tilbúið til kolmunnavinnslu. „Kolmunninn er mjög gott hráefni til mjölvinnslu og hann má fara að koma,“ segir Hafþór. Eggert Ólafur Einarsson, verksmiðjustjóri á Seyðisfirði tekur undir með Hafþóri. „Hér er allt klárt og við viljum bara fá afla sem fyrst,“ segir Eggert.

Samkvæmt fréttum í morgun var bræla á kolmunnamiðunum og lítið að frétta af aflabrögðum.