Ísfisktogarinn Bergur VE landaði fullfermi í Vestmannaeyjum sl. sunnudag og í kjölfarið landaði Vestmannaey VE fullfermi í gær. Jón Valgeirsson, skipstjóri á Bergi, segir að mjög vel hafi gengið að veiða. „Það var hörkufiskirí. Stutt dregið og góður fiskur eins og alltaf á þessum árstíma. Aflinn er mest ýsa og þorskur og hann fékkst á Landsuðurhrauni og Holtshrauni. Nú erum við komnir í páskafrí. Það er alltaf gott að pústa dálítið,“ segir Jón.
Egill Guðni Guðnason, skipstjóri á Vestmannaey, tekur undir með Jóni hvað fiskiríið varðar en Vestmannaey var að veiðum á sömu slóðum og Bergur. „Það gekk vel að veiða. Aflinn var mest þorskur og ýsa þrátt fyrir að sífellt væri verið að reyna að finna ufsa. Ufsinn er heilmikið vandamál, það vantar hann inn í veiðina og það er áhyggjuefni. Nú er komið um það bil viku stopp og það er ósköp notalegt,“ segir Egill Guðni.
Gert er ráð fyrir að bæði Bergur og Vestmannaey haldi á ný til veiða um miðnætti á páskadag.