Beitir NK að læðast inn fjörðinn í blíðunni í morgun. Ljósm. Gunnþór B. Ingvason

Að undanförnu hafa makrílveiðarnar í Smugunni gengið misjafnlega. Stundum hefur lítið veiðst en svo koma góð veiðiskot. Eitt slíkt veiðiskot kom sl. laugardac en þá voru skipin að fá góðan afla eftir stutt hol. Beitir NK kom síðan til Neskaupstaðar í morgun með 1730 tonn og hófst strax vinnsla á aflanum. Börkur NK og Margrét EA fengu einnig góðan afla en Bjarni Ólafsson AK er nýlega kominn á miðin að lokinni löndun í Neskaupstað. Auk Beitis er Hákon EA að landa frystum makríl í Neskaupstað í dag. Heimasíðan ræddi við Tómas Kárason, skipstjóra á Beiti og spurði út í gang veiðanna í Smugunni að undanförnu. „Við vorum í ágætis veiði nálægt færeysku lögsögunni í byrjun veiðiferðarinnar en það stóð frekar stutt. Síðan fannst fiskur norðar og þar var fínasta veiði á laugardag. Við tókum tvö hol þann daginn og fengum 620 tonn í því fyrra og 320 í því síðara. Þennan dag var veiði á tiltölulega stóru svæði. Eftir þetta veiðiskot fannst blettur vestar sem veitt var úr. Svona gengur þetta fyrir sig þarna – það koma fínustu skot annað veifið en svo er lítið að hafa þess á milli,“ segir Tómas.