
Að kvöldi föstudagsins var fuglinn fram í stafni skipsins og hímdi þar. Einn Gullversmanna gekk þá aftan að honum og tók hann upp. Í fyrstu sýndi fálkinn dálítinn mótþróa en fljótlega róaðist hann. Útbúinn var kassi sem hann hafðist við í þar til í land var komið og þá fékk hann gæðaþorsk að borða. Haft var samband við Náttúrustofu Austurlands og skoðaði fulltrúi hennar fuglinn á Egilsstöðum og var hann merktur. Að því loknu var fálkanum sleppt og virtist hann vera í besta formi þegar hann flaug á brott.
Gunnlaugur Hafsteinsson vélstjóri á Gullver tók meðfylgjandi myndir af fálkanum.
