Á föstudaginn langa gerði ungur fálki sig heimankominn um borð í Gullver NS en þá var skipið að veiðum á Hvalbakshallinu um 50 mílur frá landi. Þegar skipverjar urðu varir við fuglinn var hann að gæða sér á gulllaxi. Ólafur K. Nielsen fuglafræðingur fékk myndir af fuglinum og telur hann að hér sé um Grænlandsfálka að ræða sem einhverra hluta vegna hefur ferðast frá sínum hefðbundnu heimaslóðum.
 
Að kvöldi föstudagsins var fuglinn fram í stafni skipsins og hímdi þar. Einn Gullversmanna gekk þá aftan að honum og tók hann upp. Í fyrstu sýndi fálkinn dálítinn mótþróa en fljótlega róaðist hann. Útbúinn var kassi sem hann hafðist við í þar til í land var komið og þá fékk hann gæðaþorsk að borða. Haft var samband við Náttúrustofu Austurlands og skoðaði fulltrúi hennar fuglinn á Egilsstöðum og var hann merktur. Að því loknu  var fálkanum sleppt og virtist hann vera í besta formi þegar hann flaug á brott.
 
Gunnlaugur Hafsteinsson vélstjóri á Gullver tók meðfylgjandi myndir af fálkanum.