Jón Ingi Sigurðsson. Ljósm. Hákon ErnusonJón Ingi Sigurðsson. Ljósm. Hákon ErnusonNú á tímum þykir sjálfsagt að öll fyrirtæki og allar stofnanir eigi sitt eigið merki eða logo og merkið á gjarnan að gefa vísbendingu um eðli starfsemi viðkomandi fyrirtækis eða stofnunar. Sjálfsagt þótti að gert yrði merki af þessu tagi fyrir Sjávarútvegsskóla Austurlands og þá var ákveðið að leita ekki langt yfir skammt. Jón Ingi Sigurðsson háseti á Barða NK er menntaður grafískur hönnuður og var leitað til hans um að gera merki fyrir skólann. Jón Ingi tók erindinu fagnandi og lét hendur standa fram úr ermum. Niðurstaðan fylgir þessari frétt og þykir hún vel heppnuð. Jón Ingi lýsir merkinu sem fjörlegu og eigi litavalið og útfærslan að höfða til þess aldurshóps sem sækir skólann. Reynt var að hafa merkið einfalt með mjúkum línum og átti það að gefa skýra vísbendingu um hlutverk skólans. Letrið í merkinu er hins vegar sterkt og stöndugt.
 
Forsvarsmenn Sjávarútvegsskólans eru afar ánægðir með nýja merkið og mun það meðal annars prýða peysur sem allir væntanlegir nemendur skólans fá afhentar.
 
Hið nýja merki skólans.Hið nýja merki skólans.Jón Ingi Sigurðsson er Dalvíkingur að uppruna en bjó á Akureyri til skamms tíma. Á Akureyri starfaði hann við grafíska hönnun og auglýsingagerð í sjö ár en sjómennska togar ávallt í hann. Hann hefur verið á ýmsum fiskiskipum fyrir norðan en fór sinn fyrsta túr á Barða fyrir rúmlega ári síðan. Jón Ingi og fjölskylda hans er nýlega flutt búferlum til Neskaupstaðar. „Það var létt ákvörðun að flytja til Neskaupstaðar. Mér líkar afar vel á Barða og konan mín, Hugrún Ágústsdóttir, er hjúkrunarfræðingur og fólk með slíka menntun er eftirsótt hér. Við komum austur fyrir tæplega tveimur vikum þannig að börnin tvö fengu að kynnast jafnöldrum í skólanum og það gekk eins og í sögu. Það hefur verið frábærlega vel tekið á móti okkur og brátt mun þriðja barnið bætast í hópinn. Tvö elstu börnin okkar eru uppkomin og þau eru fyrir norðan. Okkur líst vel á framtíðina hér eystra,“ sagði Jón Ingi.