Gunnar Sverrisson verksmiðjustjóri segir gestunum frá verksmiðjustarfseminniFiskimjölsverksmiðja Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði fékk ánægjulega heimsókn í gær, miðvikudag. Þá heimsóttu 16 nemendur í 6., 7. og 8. bekk Seyðisfjarðarskóla  verksmiðjuna ásamt kennurum sínum. Á móti hópnum tóku Gunnar Sverrisson verksmiðjustjóri, Snorri Jónsson verkstjóri og Jón Hilmar Jónsson rafvirki. Gestunum var sýnd öll verksmiðjan og framleiðsluferillinn útskýrður allt frá því að afla er landað og þar til afurðir skila sér í afurðageymslur. Undir lok heimsóknarinnar var farið upp á mjölturna og síðan var rannsóknastofan heimsótt. Á rannsóknastofunni tók Stefán Eysteinsson á móti hópnum, greindi frá störfum sínum og sýndi krökkunum ýmsar efnafræðibrellur að auki. 

Ekkert barnanna hafði áður komið í verksmiðju sem þessa og reyndar var verksmiðjuumhverfið einnig nýtt fyrir kennarana. Kom það hópnum verulega á óvart hve verksmiðjan var tæknivædd og nútímaleg en sýnt var hvernig er unnt að stjórna og fylgjast með allri starfseminni frá einni stjórnstöð.

Að sögn Gunnars verksmiðjustjóra var þessi heimsókn einkar ánægjuleg og fannst honum skemmtilegt að sjá hve börnin sýndu starfseminni og þeirri tækni sem hún byggir á mikinn áhuga. Sumar stelpurnar í hópnum héldu fyrir nefnið í mjölhúsinu og kvörtuðu lítillega undan lyktinni en aðrir létu hana ekki á sig fá. Hugrökkustu krakkarnir létu sig meira að segja hafa það að smakka á mjöli og þótti það ekki sem verst.

Að verksmiðjuheimsókninni lokinni var boðið upp á kók og prins og ýmisháttar góðgæti öllum til óblandinnar gleði.