Í síðustu viku héldu starfsmenn Síldarvinnslunnar ásamt mökum og gestum til Gdansk í Póllandi og komu síðan heim sl mánudag og þriðjudag að aflokinni frábærri árshátíðarferð. Samtals voru ferðalangarnir um 520 talsins og skemmtu sér konunglega. Þegar þátttakendur voru spurðir í lok ferðar hvernig ferðin hefði verið voru öll svör á sömu lund: Frábær, yndisleg, ánægjuleg í alla staði og Guð, þetta var svo skemmtilegt.
Í Gdansk var dvalið á þremur gæðahótelum í miðborginni og fór vel um alla. Margir nýttu tímann til að versla og skoða sig um en Gdansk er gömul og falleg hafnarborg sem gaman er að heimsækja.
Á föstudagskvöldið skemmti fólk sér á skemmtistaðnum Roof Top by Sassy og þar var mikið stuð. Á laugardagskvöldinu var árshátíðin haldin og var hún hin magnaðasta í alla staði. Árshátíðin var haldin í gamalli byggingu sem tilheyrði eitt sinn skipasmíðastöð en ber nú nafnið Plenum. Á hátíðinni ávörpuðu Þorsteinn Már Baldvinsson stjórnarformaður og Gunnþór B. Ingvason forstjóri veislugesti og skemmtiatriðin voru ekkert slor. Veislustjóri var Selma Björnsdóttir og með henni stigu á svið hver söngvarinn á fætur öðrum ásamt frábærri hljómsveit og dönsurum. Söngvararnir sem komu fram voru Matti Matt, Vignir Snær, Jónsi í Svörtum fötum, Erna Hrönn, Sigga Beinteins og Birgitta Haukdal. Á hátíðinni var borinn fram dýrindis matur sem gestir kunnu vel að meta og að loknu borðhaldinu hófst dansinn.
Árshátíðarferðin var skipulögð af Ferðaskrifstofu Akureyrar og sá flugfélagið Nice Air um að flytja hópinn landa á milli. Hákon Ernuson, starfsmannastjóri Síldarvinnslunnar, sá um skráningu í ferðina og sinnti margvíslegum verkefnum í samstarfi við ferðaskrifstofuna og við undirbúning árshátíðarinnar. Tæknimál í tengslum við árshátíðina voru í höndum Guðjón Birgis Jóhannssonar og voru þau öll afar vel af hendi leyst.
Segja má að allt hafi hjálpast að við að gera Póllandsferðina ánægjulega og eftirminnilega. Gdansk kom mörgum á óvart enda býður borgin upp á margt auk þess sem hún er einstaklega þrifaleg og íbúarnir gestrisnir. Þá ber að nefna veðrið sem var ljúft og gott allan tímann. Ferðir eins og þessi er farin til að auka kynni starfsfólks Síldarvinnslunnar og dótturfyrirtækja auk þess sem ferðalagið og árshátíðin þjappar fólkinu saman og stuðlar að því að allir upplifi sig sem hluta af þeirri heild sem fyrirtækið er. Þarna skemmtu sér allir konunglega saman en starfsfólkið kom frá Neskaupstað, Vestmannaeyjum, Seyðisfirði og Akranesi.
Gunnþór B. Ingvason forstjóri vill þakka öllum fyrir góðar stundir í Gdansk. „Ferðin var ákaflega vel heppnuð og ég vona að allir hafi notið sín. Störfin hjá okkur eru til sjós og lands og miklar vinnutarnir á vertíðum þar sem fólk leggur mikið af mörkum. Því er afar ánægjulegt að vera í stöðu til að fara í ferð sem þessa með allt okkar frábæra fólk. Starfsemi fyrirtækisins er dreifð á nokkra staði og það er ánægjulegt þegar fólk hittist og kynni skapast á milli starfsstöðva og skipa,“ segir Gunnþór.
Þessum skrifum fylgja myndir sem Sylwester Ciszek tók.