Guðmundur BjarnasonGuðmundur BjarnasonÁ aðalfundi Síldarvinnslunnar sem haldinn var í dag minntist Þorsteinn Már Baldvinsson, stjórnarformaður félagsins, Guðmundar Bjarnasonar með eftirfarandi orðum:  
Vinur okkar og félagi, Guðmundur Bjarnason, lést hinn 11. júlí sl. Hans er sárt saknað. Guðmundur var Norðfirðingur, félagshyggjumaður og bjó yfir ótvíræðum forystuhæfileikum. Hann var Síldarvinnslumaður í húð og hár. Guðmundur gegndi starfi starfsmannastjóra Síldarvinnslunnar  á árunum 1977-1991 eða þar til hann settist í stól bæjarstjóra. Þá sat hann í stjórn Síldarvinnslunnar á árunum 1991-2005.
 
Guðmundur hafði mjög góðan skilning á mikilvægi atvinnulífsins fyrir samfélagið. Hann lagði áherslu á að velgengni atvinnulífsins væri forsenda þess að íbúarnir gætu búið við góðar aðstæður og hagsæld. Hann var sífellt í sambandi við forsvarsmenn Síldarvinnslunnar, spurði frétta og hvatti til uppbyggingar og góðra verka. Til hans var einnig leitað að hálfu fyrirtækisins því fáir þekktu betur nærsamfélagið og eðli þess og leitun var að mönnum sem bjuggu yfir meiri þekkingu á stjórnsýslu ríkisins. Ávallt var Guðmundur tilbúinn að leggja góðum málum lið og ávallt var hann jákvæður en jafnframt raunsær.  Samskipti okkar Guðmundar hófust árið 2001, þegar við sátum saman í stjórn Síldarvinnslunnar, og eftir það áttum við  tíð samtöl . Hann kom á framfæri viðhorfum sínum með ljúfum hætti og alltaf skein í gegn í hve ríkum mæli hann bar hag heimabyggðarinnar fyrir brjósti. Á þessum tíma voru að eiga sér stað miklar breytingar hjá Síldarvinnslunni og þá var ómetanlegt að eiga ráðgjafa eins og Guðmund.
 
Við sem höfðum samskipti við Guðmund höfum margs að sakna. Hann lagði mikið  af mörkum á sviði samfélagsmála en það sem ekki síst stendur upp úr er hve öll samskipti við hann voru skemmtileg. Guðmundur hafði einstaka kímnigáfu sem naut sín vel á mannamótum en ekki síður í hinu daglega lífi. Hann var mannvinur og vildi öllum vel. Sú félagshyggja sem hann stóð fyrir birtist með skýrum hætti í störfum Samvinnufélags útgerðarmanna en þar átti Guðmundur sæti í stjórn í 30 ár, þar af formaður síðustu 10 árin. Samvinnufélagið hefur notað stærstan hluta þess árlega arðs sem það hefur fengið vegna eignar sinnar í Síldarvinnslunni  til góðra málefna innan fjallahrings Norðfjarðar. Guðmundur átti stærstan hlut í að móta stefnuna um ráðstöfun arðsins og sú stefna á mikinn þátt í að móta það blómstrandi mannlíf sem hér þrífst.
 
Fyrir okkur sem fáumst við rekstur fyrirtækja er mikilvægt að í forystu þeirra sveitarfélaga sem fyrirtækin starfa í sé fólk sem sýnir rekstrinum áhuga og skilning. Guðmundur Bjarnason var slíkur forystumaður. Hann sagði stundum að velgengni atvinnulífsins væri forsenda fyrir velgengni sveitarfélagsins og ef atvinnulífið ætti í vanda þá birtist sá vandi innan tíðar á öllum þeim sviðum sem sveitarfélagið sinnti. Þess væri óskandi að flest sveitarfélög hefðu á að skipa manni eins og Guðmundi Bjarnasyni þar sem ríkur skilningur á tengslum atvinnulífs og opinberrar starfsemi er til staðar.
 
Þá tilkynnti Þorsteinn á aðalfundinum að stjórn Síldarvinnslunnar hefði ákveðið að koma á fót sjóði sem kenndur verður við Guðmund Bjarnason. Sjóðnum yrði ætlað að styrkja afreksfólk á sviði íþrótta í Neskaupstað en Guðmundur var mikill áhugamaður um íþróttir og formaður Íþróttafélagsins Þróttar á árunum 1984-1987. Verður þess farið á leit við Íþróttafélagið Þrótt að það taki að sér að annast sjóðinn en Síldarvinnslan mun árlega leggja eina milljón króna til hans.