1652

Guðmundur Bjarnason í brúnni á Berki NK í ágústmánuði sl. ljósm: Smári Geirsson

Guðmundur Bjarnason, fyrrverandi bæjarstjóri í Neskaupstað og síðar í Fjarðabyggð, lést á Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað sl. laugardag eftir erfiða baráttu við illvígan sjúkdóm. Guðmundur var fæddur í Neskaupstað 17. júlí 1949 og var búsettur í fæðingarbænum allt sitt líf. Eftirlifandi eiginkona hans er Klara Ívarsdóttir og átti hann tvö stjúpbörn.

Guðmundur gegndi fjölþættum störfum um ævina og var kjörinn til setu í fjölmörgum stjórnum og ráðum. Árið 1977 hóf hann störf sem starfsmannastjóri Síldarvinnslunni og því starfi sinnti hann til ársins 1991, en þá settist hann í stól bæjarstjóra í Neskaupstað. Á árunum 1991-2005 sat hann síðan í stjórn Síldarvinnslunnar.

Ávallt fylgdist Guðmundur vel með því sem átti sér stað á vettvangi Síldarvinnslunnar og fagnaði innilega hverju framfaraskrefi sem tekið var. Forsvarsmenn fyrirtækisins leituðu einnig oft til hans og fengu hjá honum álit eða ráð þegar ástæða þótti til. Guðmundur gerði sér fullkomlega grein fyrir því að hagur sveitarfélagsins og íbúanna réðst af gengi atvinnulífsins og áhugi hans á málefnum Síldarvinnslunnar var svo sannarlega ótvíræður.

Síldarvinnslan vill þakka Guðmundi fyrir frábær störf og gott samstarf. Það er skarð fyrir skildi þegar hann er horfinn af vettvangi, en minningin um góðan dreng mun ávallt lifa.