Guðmundur Sigurjónsson er látinn, níræður að aldri. Hann var Norðfirðingur í húð og hár, fæddur 15. september 1924. Guðmundur starfaði lengst af við fiskvinnslu hjá Samvinnufélagi útgerðarmanna og síðar hjá Síldarvinnslunni hf. Í nokkur ár fékkst hann þó við rekstur bókabúðar og eins sinnti hann um tíma starfi framkvæmdastjóra félagsheimilisins Egilsbúðar.
Baráttan fyrir bættum hag verkalýðsins var helsta hugðarefni Guðmundar frá unga aldri. Hann gegndi ýmsum störfum innan verkalýðshreyfingarinnar og var meðal annars formaður Verkalýðsfélags Norðfirðinga á árunum 1951-1953 og varaformaður árum saman. Þá átti hann einnig um tíma sæti í stjórn Alþýðusambands Austurlands. Einnig sótti Guðmundur fjölmörg ASÍ-þing og sinnti margvíslegum öðrum verkefnum fyrir hönd stéttarsystkina sinna. Fyrir utan verkalýðsmálin helgaði hann sig málefnum náttúruverndar og bindindismálum.
Guðmundur var einlægur sósíalisti alla tíð og aðhylltist reyndar stalínisma. Hann trúði á sovétkerfið og skipti ekki um skoðun í þeim efnum þó Sovétríkin féllu. Hann var af þessari ástæðu yfirleitt nefndur Guðmundur Stalín og við uppnefninu gekkst hann stoltur.
Alla tíð fylgdist Guðmundur náið með þróun atvinnulífsins í Neskaupstað og málefni sem tengdust Síldarvinnslunni voru honum hugleikin. Hann bar mikla umhyggju fyrir fyrirtækinu enda hefur Síldarvinnslan lengi verið kjölfesta atvinnulífsins í bænum og velgengni þess hefur styrkt byggðarlagið og eflt hag íbúanna.
Útför Guðmundar fer fram frá Norðfjarðarkirkju laugardaginn 6. desember kl. 11.00.