Síðdegis í gær kom ísfisktogarinn Gullver NS til Seyðisfjarðar með góðan afla að lokinni fimm daga veiðiferð. Aflinn var samtals 112 tonn og blandaður; mest af ýsu, 44 tonn og þorski, rúmlega 30 tonn. Steinþór Hálfdanarson stýrimaður segir að vel hafi fiskast þann tíma sem verið var að veiðum en tveir sólarhringar fóru í stím. „Við vorum að veiðum á Selvogsbankanum og því var drjúg vegalengd fram og til baka. Auk þess gerði kolvitlaust veður á laugardag og það hafði í för með sér 10-11 tíma frátöf frá veiðum. Við fórum upp undir Eyjar í brælunni en sem betur fer stóð hún stutt. Í túrnum vorum við því bara rúma þrjá daga að veiðum þannig að þetta voru yfir 30 tonna dagar hver um sig. Næsti túr verður hér á Austfjarðamiðum enda fáir dagar fram að páskum,“ segir Steinþór. 

Löndun hófst úr Gullver strax og hann lagðist að bryggju og hélt skipið til veiða á ný í gærkvöldi.

Gullver NS að landa á Seyðisfirði í dag. Ljósm. Ómar Bogason