Gullver NS kominn til Seyðisfjarðar, nýmálaður og fínn. Ljósm. Ómar Bogason

Ísfisktogarinn Gullver NS hefur verið í slipp á Akureyri að undanförnu. Þar var sinnt almennu viðhaldi og auk þess var skipið heilmálað. Sl föstdagskvöld sigldi Gullver frá Akureyri áleiðis heim til Seyðisfjarðar og þangað kom hann á laugardag. Það sem mesta athygli vakti við komu skipsins til heimahafnar var breytingin á lit þess; Gullver hefur ávallt verið appelsínugulur að lit en nú er hann orðinn Síldarvinnslublár. Heimasíðan ræddi við Rúnar L. Gunnarsson skipstjóra og spurði hvernig Seyðfirðingum litist á breytinguna á litnum. „Mér heyrist flestir vera jákvæðir. Skipið er fallegt svona á litinn og menn hafa rifjað upp að gamli Gullver, fyrirrennari þessa skips, hafi einmitt verið svona á litinn,“ segir Rúnar.

Stefnt er að því að Gullver haldi til veiða síðdegis á morgun.