Gullver NS. Ljósm. Þorgeir Baldursson

Ísfisktogarinn Gullver NS landaði 80 tonnum á Seyðisfirði í gær. Aflinn var að mestu þorskur sem fékkst frá Hvalbakshalli og austur á Gerpisflak. Nú er verið að undirbúa skipið fyrir togararall eða marsrall en það tók í fyrsta sinn þátt í ralli í fyrra. Verður lagt úr höfn klukkan átta í kvöld. Heimasíðan ræddi við Þórhall Jónsson skipstjóra og spurði nánar út í rallið. „Gullver mun endurtaka það sem gert var í rallinu í fyrra – það verður togað á sömu stöðum og þá. Þetta verða um 150 stöðvar sem togað verður á og eru þær á svæðinu frá Þórsbanka í austri og vestur fyrir Grímsey. Þetta er svonefnt norðaustursvæði. Það er ráðgert að rallið standi yfir í eina 20 daga og landað verði þegar verkefnið verður um það bil hálfnað. Steinþór Hálfdanarson verður skipstjóri í rallinu en hann gjörþekkir allt í sambandi við það. Steinþór var skipstjóri á Gullver fyrri hluta rallsins í fyrra og hafði áður margoft tekið þátt í ralli á Bjarti og Barða,“ segir Þórhallur.

Hið árlega togararall hefur verið framkvæmt með líkum hætti frá árinu 1985 og er tilgangur þess að mæla stofna botnfisks við landið aukið þess sem fleiri rannsóknir eru gerðar. Í rallinu er togað á tæplega 600 stöðvum allt í kringum landið og taka þátt í því bæði hafrannsóknaskip og togarar. Síldarvinnsluskip hafa margoft tekið þátt í togararalli og má nefna að Bjartur NK rallaði hvorki meira né minna en tuttugu og sex sinnum sem mun vera met.