Gullver NS í flotkví Slippsins á Akureyri. Ljósm. Þorgeir Baldursson

Það var 25. ágúst sl. sem Gullver NS lét úr höfn á Seyðisfirði og sigldi áleiðis til Akureyrar. Á Akureyri skyldi skipið fara í slipp þar sem ýmsum viðhaldsverkefnum átti að sinna auk þess sem framkvæmd skyldi 40 ára skoðun á því. Já, Gullver er hvorki meira né minna en 40 ára. Það var hinn 12. júlí árið 1983 sem skipið sigldi í fyrsta sinn inn Seyðisfjörð, nýsmíðað og glæsilegt í alla staði. Síðan hefur Gullver átt heimahöfn á Seyðisfirði, ávallt reynst vel og fært mikinn afla að landi.

Unnið hefur verið að allmörgum verkefnum um borð í Gullver fyrir norðan. Flest þeirra eru hefðbundin en til viðbótar kemur síðan 40 ára skoðunin. Þá hefur verið unnið við aðalvél og túrbínu skipsins og það þykktarmælt en það er gert á fimm ára fresti. Loks er skipið málað og gert virkilega fínt. Að sögn Grétars Arnar Sigfinnssonar, rekstrarstjóra útgerðar Síldarvinnslunnar, hefur ekkert óvænt komið upp við skoðun á skipinu og er gert ráð fyrir að slippferðin taki þrjár vikur eins og áætlað var í upphafi. „Við reiknum með að þetta klárist um helgina,“ segir Grétar.