Gullver NS siglir inn Seyðisfjörð í gær. Ljósm. Ómar Bogason

Í gærmorgun, á „gamlársdegi“ kvótaársins, kom ísfisktogarinn Gullver NS til heimahafnar á Seyðisfirði með góðan afla. Heimasíðan ræddi stuttlega við Þórhall Jónsson skipstjóra í gær og spurði frétta. „Þessi síðasti túr kvótaársins gekk bara þokkalega vel. Aflinn er rúm 90 tonn og er uppistaðan þorskur og ufsi. Við vorum núna að sækja restar af kvótanum og við getum ekki annað en verið sáttir við túrinn og reyndar allt kvótaárið. Við byrjuðum þennan túr út á Glettinganesflaki og fengum ágætan þorskafla þar. Síðan fórum við í Berufjarðarálinn og á Lónsbugtina í leit að ufsa. Það var nú ekki mikið af ufsa þarna og því var þetta hálfgert nudd. Nú verður bara landað úr skipinu og síðan farið strax út á ný. Það er ávallt skemmtilegra að halda til veiða í upphafi kvótaárs því þá eru menn ekki eins bundnir af að veiða ákveðnar tegundir eins og í lok kvótaárs. Þetta lítur bara allt ágætlega út,“ segir Þórhallur.