Ísfisktogarinn Gullver NS kom til heimahafnar á Seyðisfirði í gærkvöldi úr fyrsta túr ársins en skipið hélt til veiða 2. janúar sl. Aflinn í veiðiferðinni var 95 tonn, nánast eingöngu þorskur. Að sögn Rúnars L. Gunnarssonar skipstjóra var veitt í Seyðisfjarðardýpinu og undir lokin á Digranesflaki en leiðindaveður einkenndi túrinn. Fram kom að vart varð við loðnu í fiskinum sem Gullver fékk.
Vegna veðurútlits er ekki gert ráð fyrir að Gullver haldi til veiða á ný fyrr en annað kvöld.
Vinnsla í frystihúsinu á Seyðisfirði hófst í gær að afloknu jóla- og áramótafríi. Til að byrja með var unninn ufsi en síðan verður unninn þorskur úr Gullver. Á árinu 2019 voru unnin 2.800 tonn af fiski í frystihúsinu á Seyðisfirði og er það svipað magn og unnið hefur verið þar síðustu árin.