Gullver NS. Ljósm. Þorgeir Baldursson

Ísfisktogarinn Gullver NS kom til heimahafnar á Seyðisfirði í gær og landaði 95 tonnum. Meginhluti aflans var þorskur, ýsa og karfi. Steinþór Hálfdanarson skipstjóri segir að veiðin hafi gengið vel. „Þetta var sami hringur hjá okkur og oft áður. Við byrjuðum að veiða á Herðablaðinu, síðan var veitt Utanfótar, í Hvalbakshalli, í Berufjarðarál, á Papagrunni og í Lónsdýpinu. Loks var endað í Reyðarfjarðardýpinu en þar var lítið að hafa. Eins og fyrr í sumar var blíðuveður. Það verður að segjast að veðrið í nánast allt sumar hefur verið býsna gott og ekki yfir neinu að kvarta í þeim efnum. Haldið var til veiða strax að löndun lokinni en þessi túr verður stuttur, svokallaður stubbur, og við gerum ráð fyrir að landa á ný á fimmtudag. Þá tekur við slippur hjá skipinu og þar verður framkvæmd 40 ára skoðun á því,“ segir Steinþór.