Gullver NS á Fætinum sl. sunnudag. Ljósm. Þorgeir Baldursson

Ísfisktogarinn Gullver NS landaði í gærmorgun í heimahöfn á Seyðisfirði. Rúnar L. Gunnarsson skipstjóri segir að ekki hafi fiskast sérlega vel en túrinn hafi þó bjargast. „Túrinn tók um fjóra sólarhringa og við vorum mest að veiða á Fætinum og á Skrúðsgrunni. Aflinn var 71 tonn, að mestu þorskur og ýsa,“ segir Rúnar.

Gullver heldur ekki á ný til veiða fyrr en í kvöld, en brottför var frestað vegna veðurs.

Ómar Bogason, rekstrarstjóri frystihúss Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði, segir að vinnslan gangi ágætlega og samkvæmt áætlun. „Það má segja að vinnslan rúlli fínt og afurðaverð eru góð. Það er engin ástæða til að kvarta,“ segir Ómar.