Landað úr Gullver NS í morgun. Ljósm. Ómar Bogason

Ísfisktogarinn Gullver NS kom til Seyðisfjarðar í morgun með 86 tonn af þorski. Það er mánuður liðinn frá því að skipið landaði síðast í heimahöfn en það var í Hafnarfirði þar sem ýmsum viðhaldsverkefnum var sinnt. Heimasíðan sló á þráðinn til Steinþórs Hálfdanarsonar skipstjóra og spurði hvort ekki væri gott að vera kominn á sjóinn á ný. „Jú, það er ágætt. Við héldum frá Hafnarfirði sl. þriðjudag og hófum veiðar fyrir vestan. Þá lentum við í því að það bilaði kælingin í lestinni og þess vegna var haldið til Dalvíkur. Á Dalvík var gert við bilunina og þar lönduðum við þeim afla sem við vorum komnir með en það voru 30 tonn af þorski og karfa. Því næst var haldið á Digranesflakið og þar vorum við í hörkufiskiríi í eina tvo sólarhringa. Við komum svo til Seyðisfjarðar í morgun,“ segir Steinþór.

Ómar Bogason, rekstrarstjóri frystihúss Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði, segir að margir hafi fagnað Gullver þegar hann kom til löndunar í morgun eftir að hafa verið frá í mánaðartíma. „Hjá okkur er Gullver fastur punktur í tilverunni og menn sakna hans ef hann kemur ekki reglulega til hafnar. Aflinn fer í ferska hnakka og bakflök og fer út með Norrænu annað kvöld. Þessi fiskur verður síðan á borðum fólks í Frakklandi og Þýskalandi eftir helgina,“ segir Ómar.

Gullver mun halda á ný til veiða síðdegis á morgun.