Ísfisktogarinn Gullver NS kom til heimahafnar á Seyðisfirði í gærmorgun að lokinni veiðiferð. Afli skipsins var 102 tonn og uppistaða hans var þorskur og ýsa. Þórhallur Jónsson skipstjóri segir að fiskurinn sem fékkst hafi verið einstaklega fallegur. „Við hófum veiðiferðina í Seyðisfjarðardýpinu og tókum þar þorsk. Síðan var haldið á Papagrunn og reynt við ufsa með heldur döprum árangri. Þá var farið á Skrúðsgrunninn og ýsan tekin þar. Segja má að allt hafi gengið vel að undanskildum ufsanum en eins og hefur verið að undanförnu reyndist býsna erfitt að hafa upp á honum,“ segir Þórhallur.
Drjúgur hluti afla Gullvers fer til vinnslu í frystihúsi Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði og segir Ómar Bogason, rekstarstjóri hússins, að eins og alltaf komi einstaklega góður fiskur úr Gullver.
Gullver mun halda til veiða á ný síðdegis í dag.