Ísfisktogarinn Gullver NS er væntanlegur til Seyðisfjarðar í dag að lokinni fyrstu veiðiferð eftir verslunarmannahelgi. Aflinn er 90 tonn, mest þorskur en einnig karfi, ýsa og ufsi. Heimasíðan ræddi stuttlega við Steinþór Hálfdanarson skipstjóra og spurði fyrst hvernig túrinn hefði gengið. „Hann gekk svona sæmilega. Við reyndum við ufsa en eins og oft áður gekk það ekki vel. Þá gaf karfinn sig ekki heldur. Ýsu er hins vegar víða hægt að fá og það gekk þokkalega að fá þorskinn. Við fórum allvíða í túrnum. Vorum um tíma á Lónsdýpi og síðan á Stokksnesgrunni, Papagrunni og í Berufjarðarál. Þorskinn tókum við síðan utan Fótar. Veður var þokkalegt allan túrinn; suðvestan golukaldi lengst af. Þessi túr var fimm dagar höfn í höfn og ég held að menn verði bara að vera sæmilega sáttir með hann,“ segir Steinþór.
Frystihús Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði hefur verið í sumarfríi að undanförnu en ráðgert er að vinnsla hefjist þar á ný hinn 17. ágúst nk.