Ísfisktogarinn Gullver NS er að landa í Hafnarfirði í dag. Það gerist ekki oft að Gullver landi annars staðar en í heimahöfn á Seyðisfirði og því vekur þetta nokkra athygli hjá þeim sem fylgjast með útgerð skipsins. Heimasíðan sló á þráðinn til Þórhalls Jónssonar skipstjóra og spurði fyrst hvað réði þessum löndunarstað. „Það er einfalt, við höfum verið að veiðum hér syðra og þá er eðlilegt að landa hér suðvestanlands. Við fórum frá Seyðisfirði sl. sunnudag og hófum veiðar á mánudag þannig að við vorum innan við þrjá sólarhringa að veiðum. Við byrjuðum veiðarnar á Selvogsbanka, síðan var haldið á Reykjanesgrunn og loks endað í Skerjadýpinu. Aflinn er um 110 tonn eða fullfermi, mest ufsi en einnig þorskur, ýsa og karfi. Það var gott nudd allan tímann og svo komu ágæt skot annað slagið. Það er ekki oft sem Gullver landar annars staðar en í heimahöfn en þó var landað bæði í Hafnarfirði og í Þorlákshöfn yfir vertíðartímann 2019 og 2020. Hins vegar var alfarið fiskað og landað fyrir austan í fyrra. Við förum út síðdegis í dag og það er reiknað með að við tökum annan túr hér syðra. Síðan held ég að ráðgert sé að halda á ný í heimahagana.“ Segir Þórhallur.