Gullver NS við frystihúsbryggjuna á Seyðisfirði. Ljósm. Ómar Bogason

Ísfisktogarinn Gullver NS kom til löndunar á Seyðisfirði sl. sunnudag. Aflinn var rúm 108 tonn og uppistaða hans þorskur, ufsi og karfi. Skipstjóri í veiðiferðinni var Rúnar L. Gunnarsson og segir hann að þetta hafi verið fínasti túr. „ Við byrjuðum í karfa í Lónsdýpinu og í Berufjarðarálnum en síðan vorum við mest í Litladýpinu. Við skruppum að vísu einnig út á Þórsbanka en þar var lítið að hafa,“ segir Rúnar.

Vinnsla í frystihúsinu á Seyðisfirði gengur vel en að sögn Ómars Bogasonar, skrifstofustjóra, er vöntun á fólki til starfa. „Okkur vantar nokkra starfsmenn, en það hefur gengið erfiðlega að ráða fólk. Það virðast ekki margir Íslendingar tilbúnir að koma og vinna í fiski, en nú er um 60% starfsmannanna hjá okkur af erlendu bergi brotnir. Sumir þessara erlendu starfsmanna hafa að vísu unnið hjá okkur lengi og eru orðnir rótgrónir. Ég vil hvetja fólk til að sækja um störf hjá okkur. Við bjóðum upp á gott starfsöryggi og það er eitthvað sem menn hljóta að meta nú á tímum,“ segir Ómar.