Gullver NS kom til Seyðisfjarðar í gær með um 50 tonn af fiski sem unninn verður í frystihúsinu á staðnum. Gullver hélt til veiða á föstudagskvöld þannig að hann var einungia að veiðum í um sólarhring. Þórhallur Jónsson skipstjóri segir að aflinn hafi mest verið þorskur og ýsa en hann fékkst frá Fætinum og vestur á Hvalbakshall. Gullver hélt á ný til veiða fljótlega að löndun lokinni og er gert ráð fyrir að hann landi á ný á laugardag.
Ómar Bogason, rekstrarstjóri frystihússins á Seyðisfirði, segir að húsið hafi í reynd verið orðið fisklaust þegar Gullver kom í gær. „Við munum nú klára þann afla sem Gullver kom með í gær og ég reikna með að það verði búið annað kvöld. Síðan hefst páskafrí hjá okkur. Gert er ráð fyrir að vinnsla hefjist á ný á þriðjudag eftir páska og þá verður kominn góður skammtur frá Gullver,“ segir Ómar.