Ísfisktogarinn Gullver NS landaði fullfermi á Seyðisfirði í gær. Bróðurparturinn af aflanum var þorskur en einnig nokkuð af ýsu, ufsa og karfa. Steinþór Hálfdanarson skipstjóri segir að túrinn hafi gengið vel í alla staði. „ Aflinn var um 115 tonn þannig að það er ekki hægt að kvarta. Við vorum að veiða í Berufjarðarálnum og við Örvæntingu og síðan tókum við tvö hol á Lónsbugtinni. Þetta gekk afar vel. Það er verulegt magn af þorski á þessum slóðum og það virtist vera að Lónsbugtin væri þakin af ýsu. Við urðum þarna til dæmis varir við töluvert af smáýsu. Það var sannast sagna fínasti afli í þessum túr og allt í lukkunnar velstandi,“ segir Steinþór.
Gullver mun halda á ný til veiða í fyrramálið.