Gullver „karaður“ að lokinni löndun. Ljósm. Ómar Bogason

Ísfisktogarinn Gullver NS landar fullfermi eða 115 tonnum í heimahöfn á Seyðisfirði í dag. Uppistaða aflans er þorskur en síðan er mest af karfa og ýsu. Heimasíðan ræddi við Steinþór Hálfdanarson skipstjóra og spurði fyrst um aflabrögðin. „Það hefur sannast sagna verið hörkufiskirí hérna fyrir austan síðustu vikur. Það hefur víða verið mjög góð veiði. Í þessum túr fengum við karfann í Berufjarðarálnum en síðan veiddum við á Fætinum, á Skrúðsgrunni, í Reyðarfjarðardýpinu og enduðum á Tangaflaki. Fyrir utan góða veiði var gott veður og í sannleika sagt gekk allt eins og í sögu. Við lönduðum síðast 20. október og þá var skipið nánast fullt. Þá vorum við eingöngu á Glettinganesflakinu og Tangaflakinu í fínasta fiskiríi. Hér um borð eru allir hinir bröttustu, hvernig á annað að vera,“ segir Steinþór.