Gullver NS er að landa fullfermi á Seyðisfirði í dag. Ljósm. Ómar Bogason

Ísfisktogarinn Gullver NS er að landa fullfermi á Seyðisfirði í dag. Aflinn er rúm 114 tonn og er uppistaðan þorskur og ufsi. Hér er um að ræða 19. veiðiferð skipsins á árinu en auk þess landaði það tvisvar þegar tekið var þátt í rallinu í marsmánuði. Heimasíðan ræddi við Hjálmar Ólaf Bjarnason stýrimann og spurði fyrst hvort menn væru ekki ánægðir með túrinn. „Jú, þetta var bara fínasti túr. Það er lögð mikil áhersla á að finna ufsa en það gengur misjafnlega hjá okkur og reyndar hjá öllum. Við fengum smá ufsaskot í þessum túr. Við veiddum víða að þessu sinni. Við vorum í Hvalbakshallinu en það var líka farið í Berufjarðarálinn, á Papagrunn og í Lónsbugtina og Lónsdýpið. Veðrið var gott má segja. Við fengum smá kaldaskít um tíma en hann gekk fljótt yfir. Að þessu sinni vorum við í fjóra og hálfan sólarhring að veiðum þannig að það er engin ástæða til að kvarta undan aflabrögðum,“ segir Hjálmar Ólafur.

Gert er ráð fyrir að Gullver haldi á ný til veiða annað kvöld.