Ísfisktogarinn Gullver NS kom til Seyðisfjarðar úr veiðiferð sl. laugardag. Afli skipsins var 115 tonn og er það fullfermi. Landað var úr skipinu í gær. Heimasíðan ræddi við Hjálmar Ólaf Bjarnason skipstjóra og spurði fyrst hvar hefði verið veitt. „Við vorum mest á Glettingi. Þar fengum við mjög góðan fisk og var það langmest þorskur. Það er oft góður afli þarna á þessum árstíma. Síldin hangir þarna og fiskurinn liggur í henni. Veðrið var þokkalegt þar til undir lokin en þá fór það að stríða okkur verulega. Við komum í land á laugardaginn og það er reiknað með að skipið haldi til veiða á ný annað kvöld,“ segir Hjálmar Ólafur.