Ísfisktogarinn Gullver NS landaði fullfermi eða 108 tonnum á Seyðisfirði í gærmorgun. Uppistaða aflans var þorskur og ýsa en einnig var nokkuð af ufsa og gullkarfa. Frystihús Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði tók drjúgan hluta aflans til vinnslu en hluti hans fór til vinnslu á Akureyri og í Neskaupstað. Þórhallur Jónsson skipstjóri segir að nú á tímum kórónaveirunnar fari Gullver í eina veiðiferð á viku og í þessari veiðiferð hafi verið farið suður fyrir land. „Við byrjuðum í Breiðamerkurdýpi og á Öræfagrunni og tókum þar þrjú hol. Síðan var keyrt á Selvogsbankann og þar fengust 85-90 tonn á einum og hálfum sólarhring. Þá var komið hrygningarstopp og Selvogsbankanum lokað. Það verður að segjast að þetta var fínasti túr“, segir Þórhallur.
Gullver NS heldur á ný til veiða í kvöld.