Ísfisktogarinn Gullver NS kom til Seyðisfjarðar í gær að aflokinni fjögurra daga veiðiferð. Skipið var með fullfermi eða 107 tonn og var þorskur og ufsi uppistaða aflans. Heimasíðan sló á þráðinn til Rúnars L. Gunnarssonar skipstjóra og spurði hvort aflinn hefði fengist á hefðbundnum miðum skipsins. „Jú, hann fékkst á okkar hefðbundnu miðum – í Berufjarðarálnum og Hvalbakshalli. Við höfum haldið okkur á þessum miðum í ríkum mæli það sem af er árinu en fórum þó tvo túra á Selvogsbankann seinni partinn í apríl. Almennt hefur afli verið jafn og góður það sem af er ári og það er víst að við getum ekki kvartað,“ segir Rúnar.
Ráðgert er að Gullver haldi aftur til veiða klukkan 10 í fyrramálið.