Ísfisktogarinn Gullver NS kom til Seyðisfjarðar í gær með fullfermi eða 106 tonn. Aflinn var mest þorskur en einnig dálítið af karfa, ufsa og ýsu. Heimasíðan ræddi við Þórhall Jónsson skipstjóra og spurði fyrst hvar skipið hefði verið að veiðum. „Við fengum mestan hluta af aflanum í Litladýpinu og á Fætinum. Þar var fínasti þorskur. Við fórum síðan allt vestur á Mýragrunn í leit að ufsa og ýsu en það bar takmarkaðan árangur. Það sem helst bar til tíðinda í veiðiferðinni var það að við fengum gott veður í þrjá af þeim fjórum dögum sem við vorum að veiðum. Það er lúxus sem við höfum ekki upplifað lengi og mikið fagnaðarefni,“ segir Þórhallur.
Gert er ráð fyrir að Gullver haldi aftur til veiða kl. 8 annað kvöld.