Trollið tekið á Gullver NS. Á myndinni má greinilega sjá hvernig nýi trollpokinn lítur út. Ljósm. Rúnar L. GunnarssonTrollið tekið á Gullver NS. Á myndinni má greinilega
sjá hvernig nýi trollpokinn lítur út.
Ljósm. Rúnar L. Gunnarsson
Ísfisktogarinn Gullver NS landaði á Seyðisfirði í gær. Afli skipsins var 67 tonn eftir stutta veiðiferð í kjölfar sjómannadagshelgar. Togarinn hélt til veiða hinn 4. júní þannig að veiðiferðin var innan við tveir og hálfur sólarhringur höfn í höfn. Uppistaða aflans var þorskur en auk þess var skipið með karfa og ýsu.  Þórhallur Jónsson var skipstjóri í veiðiferðinni og segir hann að aflinn hafi verið góður. „Þetta var ágætur afli sem fékkst í Litladýpi suðaustur úr Hvalbaknum. Veiðiferðin var stutt vegna þess að fiskvinnslustöðinni vantaði hráefni,“ segir Þórhallur.
 
Gullver hélt til veiða á ný í gærkvöldi.
 
Gullver er nýlega farinn að nota nýja gerð af trollpoka sem þróaður hefur verið hjá Fjarðaneti hf. Pokinn er fjögurra byrða skálmapoki þannig að aflinn sem í hann kemur skiptist í tvennt og þannig er minni pressa á fiskinum. Þarna er um að ræða síðupoka sem felldur er á nýstárlegan hátt. Hermann Hrafn Guðmundsson hjá Fjarðaneti á Akureyri segir að byrjað hafi verið að nota þennan poka í vetur og nú hafi hann verið reyndur á þremur togurum. „Þessi poki er unik að allri gerð og reynslan af honum hefur verið afar góð. Ekki veit ég hvað á að kalla þennan poka, en ætli sé ekki best að kalla hann bara unik – poka,“ segir Hermann.