:  Verið að landa úr Gullver NS í gær. Í baksýn er Vilhelm Þorsteinsson EA að koma til löndunar með fullfermi af kolmunna. Ljósm. Ómar BogasonVerið að landa úr Gullver NS í gær. Í baksýn er Vilhelm
Þorsteinsson EA að koma til löndunar með fullfermi
af kolmunna. Ljósm. Ómar Bogason
Gullver NS kom til Seyðisfjarðar sl. sunnudag með 104 tonn af blönduðum afla. Um  helmingur aflans var þorskur en hinn helmingurinn ýsa, ufsi og karfi. Skipstjóri á Gullver í þessari veiðiferð var Rúnar Gunnarsson og segir hann að vel hafi gengið að veiða. „Við vorum í Lónsbugt og Berufjarðarál og veiðin gekk ágætlega. Þetta eru okkar hefðbundnu mið. Við fórum hins vegar fjóra túra á Selvogsbanka fyrir hrygningarstopp og einn túr eftir stoppið og þar fékkst ágætur afli,“ segir Rúnar.
 
Drjúgur hluti af afla Gullvers fer til vinnslu í fiskvinnslustöð Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði. Þar eru framleiddir hnakkar og flök sem flutt eru út fersk til Frakklands og Þýskalands og síðan er þar fiskur unninn og frystur á Bandaríkjamarkað. Karfinn í afla Gullvers fór til vinnslu í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað.