Gullver NS. Ljósm. Þorgeir Baldursson

Gullver NS kom til Seyðisfjarðar í gær með 100 tonna afla. Langmest var um að ræða þorsk og ýsu. Rúnar L. Gunnarsson skipstjóri segir að veiðiferðin hafi verið tiltölulega löng. „Við byrjuðum í karfa í Berufjarðarálnum en það gekk ekki vel. Þá færðum við okkur og vorum að veiðum frá Fæti og norður á Gletting. Það var ekkert sérstakt fiskirí en þetta mjatlaðist. Við gerum ráð fyrir að halda til veiða á ný á morgun,“ segir Rúnar.

Bergey VE er á leiðinni til Vestmannaeyja með fullfermi. Heimasíðan sló á þráðinn til Jóns Valgeirssonar skipstjóra og spurði fyrst hvar veitt hefði verið. „Við byrjuðum á að reyna við kola í Sláturhúsinu en það gekk ekki vel. Þá var haldið í Litladýpið og á Breiðdalsgrunn og þar gekk bara vel að fiska. Aflinn er mest þorskur og ýsa og þetta er vænn og góður fiskur. Við vorum einungis þrjá daga á veiðum og það er engin ástæða til að kvarta. Þá var veðrið einnig þokkalegt í veiðiferðinni. Ég geri ráð fyrir að haldið verði aftur austur fyrir land í næsta túr,“ segir Jón.