Bjartur NK kemur til löndunar á Seyðisfirði í dag. Gullver NS liggur við bryggju. Ljósm. Ómar BogasonBjartur NK kemur til löndunar á Seyðisfirði í dag. Gullver NS liggur við bryggju. Ljósm. Ómar BogasonÍsfisktogarinn Gullver NS landaði á Seyðisfirði sl. sunnudag. Afli hans var 100 tonn, þar af 65 tonn þorskur. Skipið mun halda til veiða á ný í kvöld. Bjartur NK kom síðan til löndunar á Seyðisfirði í dag með fullfermi eða 100 tonn. Afli Bjarts er að uppistöðu til þorskur og karfi. Bjarni Hafsteinsson skipstjóri sagði að aflinn hefði fengist víða. „Við byrjuðum suðaustur af Stokksnesi og síðan var haldið í Lónsdýpi og Berufjarðarál. Þarna var verið að eltast við karfa. Síðan var haldið í ufsaleit út á Þórsbanka. Þá var reynt fyrir sér í Seyðisfjarðardýpi en þar fékkst heldur lítið. Við enduðum síðan túrinn í góðri þorskveiði á Digranesflakinu. Við hljótum að vera sáttir við þessa veiðiferð enda komum við með fullt skip,“ sagði Bjarni að lokum.
 
Bjartur heldur til Neskaupstaðar að lokinni löndun á Seyðisfirði og mun halda til veiða á ný nk. fimmtudagsmorgun.