Gullver NS leggst að bryggju á Seyðisfirði í gær.
Ljósm. Ómar Bogason

Gullver NS kom til Seyðisfjarðar laust fyrir hádegi í gær og landaði þar um 22 tonnum af fiski sem fengist hefur í togararallinu sem skipið tekur þátt í. Heimasíðan ræddi við Rúnar L. Gunnarsson skipstjóra og spurði fyrst hvernig honum líkaði í rallinu. „Þetta er bara fínt og hefur gengið vel. Við erum búnir að vera átta sólarhringa og höfum togað á 84 stöðvum af 151 sem eru á okkar svæði, en það nær alveg frá Kolbeinsey og suður að Hvalbak. Við gerðum ráð fyrir að nota eina 20 daga í þetta en veðrið er búið að vera gott þannig að þetta hefur gengið betur en gert var ráð fyrir. Gullver er að fara í sitt fyrsta rall en Steinþór Hálfdanarson stýrimaður þekkir þetta vel og hefur farið í mörg röllin á Bjarti og Barða. Nú eigum við eftir stöðvarnar fyrir norðan, eða frá Kolbeinsey og austur á Langanesgrunn. Vonandi gengur jafn vel að toga á þeim og á stöðvunum hér fyrir austan,“ segir Rúnar. 

Gullver mun leggja úr höfn í kvöld og hefja síðari hluta rallsins. Þá mun Þórhallur Jónsson setjast í skipstjórastólinn.