Gullver NS landaði 83 tonnum á Seyðisfirði í gær. Aflinn var mest þorskur. Steinþór Hálfdanarson skipstjóri segir að túrinn hafi gengið vel. „Við vorum að veiðum á Fætinum, á Breiðdalsgrunni, í Berufjarðarál og í Lónsdýpinu. Þetta eru okkar hefðbundnu mið. Veðrið var gott í túrnum, einungis ein stutt bræla. Það er að vora og það er ósköp gott,“ segir Steinþór.
Nú er verið að útbúa Gullver í togararall en það verður í þriðja sinn sem skipið tekur þátt í rallinu. Skipstjóri í fyrri hluta rallsins verður Þórhallur Jónsson og segir hann að látið verði úr höfn í dag. „Okkar hlutverk verður að toga á um 150 stöðvum frá Þórsbanka og vestur fyrir Grímsey. Það er togað á sömu stöðvum ár eftir ár. Þetta er svonefnt austur- og norðaustursvæði sem við sjáum um. Rallið verður tvískipt og er gert ráð fyrir að hvor hluti taki eina 10 daga þannig að það fara einir 20 dagar í þetta,“ segir Þórhallur.
Togararallið, sem oft er reyndar nefnt marsrall, er árlegt og hefur verið framkvæmt með sambærilegum hætti allt frá árinu 1985. Tilgangur rallsins er liður í að mæla stofna botnfisks við landið. Alls er togað á tæplega 600 stöðvum allt í kringum landið og taka bæði hafrannsóknaskip og togarar þátt í rallinu.