Ísfisktogarinn Gullver NS kom úr slipp á Akureyri sl. laugardag. Í slippnum var aðalvél skipsins tekin upp, unnið að endurbótum á vinnsluþilfari auk þess sem skipið var málað og ýmsum viðhaldsverkefnum sinnt. Gullver hélt strax til veiða og hafði heimasíðan samband við Rúnar L. Gunnarsson skipstjóra. „Við fórum beint í Lónsbugtina og höfum verið að fá þar ufsa og ýsu. Aflinn hefur verið þokkalegur. Gert er ráð fyrir að við löndum á fimmtudagsmorgun,“ sagði Rúnar.