Ísfisktogarinn Gullver NS kom til heimahafnar á Seyðisfirði í fyrrinótt með fullfermi eða rúmlega 115 tonn. Uppistaða aflans var þorskur en einnig var dálítið af ýsu og karfa. Heimasíðan ræddi við Rúnar L. Gunnarsson skipstjóra og spurði fyrst hvar hefði verið veitt. “ Þetta var fimm daga túr og það var veitt víða. Við vorum á Glettinganesflaki og Gerpisflaki og síðan út á Þórsbanka. Megnið af aflanum fengum við þó á Fætinum. Það var þokkalegt veður allan túrinn ef undanskilin er ein brælunótt. Það lítur hins vegar ekkert alltof vel út með veðrið núna – spáin er ekki girnileg”, segir Rúnar.
Gullver hélt á ný til veiða í gærdag.