received 647529682317525

Björgunarbáturinn dreginn upp úr sandinum. Ljósm:Gísli Tómasson

                Það mun hafa verið snemma í marsmánuði síðastliðnum að ísfisktogarinn Gullver NS tapaði gúmmíbjörgunarbát. Báturinn fannst síðan við Skarðsfjöruvita í Meðallandi sl. laugardag.

                Í spjalli við þá Rúnar L. Gunnarsson skipstjóra á Gullver og Steinþór Hálfdanarson stýrimann kom fram að sennilega hefði báturinn lent í sjóinn 8. eða 9. mars en það tókst ekki eftir því að hann væri horfinn fyrr en 12. mars. „Báturinn var upp á palli á síðunni stjórnborðsmegin og voru menn undrandi að sjá að hann var þar ekki lengur, en enginn veitti því athygli þegar hann fór. Nú er það þannig að nýir sendar í björgunarbátum fara sjálfkrafa í gang þegar báturinn er kominn í sjó en í þessum báti var sendir eldri gerðar sem gerir það ekki sjálfvirkt,“ segir Steinþór.

        Gullversbjorgunarbatur

Neyðarsendirinn í björgunarbátnum var í góðu lagi. Ljósm: Gisli Tómasson

        Nú víkur sögunni suður á land. Gísli Tómasson pípulagningamaður í Hveragerði var með fjölskyldunni í helgarútilegu á Kirkjubæjarklaustri og sl. laugardag var ákveðið að fara í góðan laugardagsbíltúr. Ekið var niður að ströndinni og allt í einu rak Gísli augun í eitthvað appelsínugult í fjörunni sem hann vildi athuga nánar hvað væri. Þetta var um 700 metra austan við Skarðsfjöruvitann. Strax kom í ljós að þarna var um gúmmíbjörgunarbát að ræða og var hann hálfhulinn sandi. Til að kanna bátinn betur festi hann tóg í hann og dró síðan bátinn upp úr sandinum á jeppanum sem hann ók. Þegar báturinn var skoðaður kom í ljós hylki með skoðunarskírteini þar sem sást að báturinn var af Gullver NS. Þá reyndist neyðarsendirinn vera í bátnum og við athugun kom í ljós að hann var eins og nýr og virkaði vel.

                Gísli lét Síldarvinnsluna, eiganda Gullvers, vita af þessum fundi sínum og kann fyrirtækið honum bestu þakkir fyrir.