Ísfisktogararnir Bergur VE og Vestmannaey VE lönduðu báðir fullfermi í Eyjum á mánudag. Veiðiferðin var stutt hjá báðum, vel aflaðist en veður var hins vegar ekki hagstætt. Afli beggja skipa var blandaður en mest var af þorski. Ragnar Waage Pálmason, skipstjóri á Bergi, segir að veiðiferðin hafi einkennst af flótta undan veðri. „Við byrjuðum á Pétursey en síðan var flúið í Meðallandsbugtina. Þá lá leiðin á Ingólfshöfða og þaðan aftur í bugtina. Lokaholið var síðan tekið á Víkinni. Það er ekki algengt að það séu 35 metrar í maí en það upplifðum við í þessum túr. Þetta var sannkallaður brælutúr,“ segir Ragnar.
Birgir Þór Sverrisson, skipstjóri á Vestmannaey, tekur undir með Ragnari. „Það var ekkert sumarveður í þessum túr heldur leiðindabræla. Það fiskaðist hins vegar vel og túrinn tók einungis tvo og hálfan sólarhring. Við veiddum í Meðallandsbugtinni og á Höfðanum. Segja má að aflinn sé góð blanda; þorskur, ýsa, steinbítur, langa og ufsi,“ segir Birgir Þór.
Bergur og Vestmannaey munu ekki halda til veiða á ný fyrr en eftir sjómannadag eða næstkomandi mánudag. Það hefur verið hægt á veiðum skipanna að undanförnu, kvótinn sparaður svo unnt sé að fiska í sumar. Gert er ráð fyrir að hlé verði á veiðum Bergs um mánaðartíma í júní og júlí og í kjölfarið muni Vestmannaey fara í mánaðarstopp.