Góður afli hjá Bergi VE.
Ljósm. Ragnar Waage Pálmason

Ísfisktogararnir Bergur VE og Vestmannaey VE lönduðu báðir í Eyjum á sunnudag. Bæði skip voru nánast með fullfermi og var aflinn að mestu ýsa og þorskur. Jón Valgeirsson, skipstjóri á Bergi segir að rótargangur sé í veiðinni. „Við fiskuðum í Háadýpinu og á Hólshrauni og það var ekkert mál að fylla skipið. Það er nóg af ýsu og þorski en því miður vantar ufsann. Við vorum innan við sólarhring að veiðum í túrnum. Nú þarf að hægja á og við höldum ekki til veiða á ný fyrr en á föstudag,“ segir Jón.

Egill Guðni Guðnason, skipstjóri á Vestmannaey, tekur undir með Jóni og segir að ýsu- og þorskveiðin gangi eins og í sögu en það sjáist lítið af ufsa. „Við héldum til veiða á ný strax að löndun lokinni á sunnudaginn og áttum að ná í 20 tonn karfa og 20 tonn af ýsu. Við tókum karfaskammtinn í þremur holum. Eitt hol var tekið í Háadýpinu, eitt á Sneiðinni og eitt á Selvogsbanka. Þá sneru menn sér að ýsunni og náðu henni í fjórum holum. Eitt hol var tekið við Surt, tvö við Landsuðurhraun og eitt í Háadýpinu. Samtals varð aflinn 53 tonn. Það er ekki hægt að kvarta undan þessu,“ segir Egill Guðni.

Gullver NS landaði á Seyðisfirði í gær. Aflinn var 70 tonn eftir tveggja sólarhringa veiðiferð. Steinþór Hálfdanarson skipstjóri segir að vel hafi gengið að fiska. „Það er ekki hægt að kvarta undan aflabrögðum. Aflinn var langmest þorskur en þetta var svolítið ýsuborið. Í túrnum var veitt við Örvæntingu og norður undir Þorskhaus,“ segir Steinþór.

Gullver heldur til veiða á ný í kvöld.