Börkur NK landaði 3.211 tonnum af loðnu í fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði í gær. Hér er um að ræða afar stóran farm og af því tilefni sló heimasíðan á þráðinn til Eggerts Ólafs Einarssonar verksmiðjustjóra. „Já, við lönduðum rétt tæpum 3.211 tonnum af loðnu úr Berki í gær. Þetta er stærsti loðnufarmur sem hingað hefur borist og ég hef reyndar aldrei heyrt um stærri loðnufarm. Beitir hefur nokkrum sinnum landað hér yfir þrjú þúsund tonna förmum en það hefur ávallt verið kolmunni. Það gekk vel að landa í gær og vinnslan gengur ágætlega en auðvitað vill maður alltaf að þetta gangi örlítið betur en það gerir,“ segir Eggert.
Heimasíðan ræddi einnig við Hafþór Eiríksson, verksmiðjustjóra í fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar í Neskaupstað, og spurði hvort hann kannaðist við að svo stór loðnufarmur hefði borist að landi. „Nei, ég hef aldrei heyrt um stærri loðnufarm. Samkvæmt Fiskistofu landaði Beitir hjá okkur 3.117 tonnum í byrjun mars 2017 og þá var því haldið fram að um heimsmet væri að ræða. Síðan hefur Beitir einu sinni landað kolmunnafarmi sem var 3.220 tonn. Það kæmi mér ekki á óvart ef þetta væri stærsti loðnufarmur sögunnar,“ segir Hafþór.
Vilhelm Þorsteinsson EA kom til Neskaupstaðar í dag með 2.045 tonn og er gert ráð fyrir að hluti aflans fari til manneldisvinnslu. Hingað til hefur öll loðna sem borist hefur til Síldarvinnslunnar á vertíðinni farið til framleiðslu á mjöli og lýsi.