Nýja verksmiðjuhúsið er fremst á myndinni. Ljósm. Guðlaugur B. Birgisson

Um þessar mundir er verið að ljúka við að klæða stálgrind nýs verksmiðjuhúss sem byggt er við fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar í Neskaupstað og jafnframt er nýlokið við að koma upp myndarlegum skorsteini. Verksmiðjuhúsið er 2000 fermetrar að stærð og er þegar hafin vinna við uppsetningu vélbúnaðar í því. Þegar hefur fjórum þurrkurum verið komið fyrir á undirstöðum í nýbyggingunni og í kjölfarið munu menn snúa sér að uppsetningu annars búnaðar. Í fyrstu verður lögð áhersla á uppsetningu lítillar verksmiðju sem á að afkasta 380 tonnum á sólarhring en í kjölfarið verður unnið að endurbótum og stækkun á núverandi verksmiðju sem mun afkasta 2000 tonnum á sólarhring. Þegar öllum framkvæmdum verður lokið verða heildarafköstin á sólarhring því 2380 tonn.

Litla verksmiðjan verður samansett af tveimur framleiðslulínum og afkastar hvor þeirra 190 tonnum. Ráðgert er að fyrri línan verði tilbúin í lok júnímánaðar og sú síðari í lok ágúst. Þessari litlu verksmiðjueiningu er fyrst og fremst ætlað að vinna afskurð frá fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar auk þess sem hún mun nýtast vel til þróunarverkefna en fyrirhugað er að leggja áherslu á vinnslu á verðmætari afurðum en hingað til hafa verið framleiddar í fiskimjölsverksmiðjum. Verksmiðjan kemur frá HPP (Hedinn Protein Plant) sem er dótturfélag vélsmiðjunnar Héðins. HPP hefur verið að þróa þessa gerð af verksmiðju á undanförnum árum og það sem einkennir hana meðal annars er hagkvæmni og minna umfang en á eldri verksmiðjum auk þess að geta framleitt mjöl og lýsi til manneldis. Fyrirtækið nefnir verksmiðjuna próteinverksmiðju og er hún 30% minni að umfangi en hefðbundnar verksmiðjur og þarf því minna húsrými.

Unnið er að uppsetningu fjögurra þurrkara í nýja verksmiðjuhúsinu.
Ljósm. Smári Geirsson

Í stóru verksmiðjunni munu væntanlega ekki nást full afköst fyrr en í lok árs 2023. Í henni verður ýmis nýr búnaður sem mun meðal annars spara orku umtalsvert. Að auki er afar orkusparandi að geta keyrt litlu verksmiðjuna þegar ekki er þörf á miklum afköstum. Mun búnaðurinn í nýja verksmiðjuhúsinu verða settur upp í áföngum án þess að það hafi áhrif á framleiðslustarfsemina þannig að jafnhliða framkvæmdunum verður áfram framleitt fiskimjöl og lýsi í verksmiðjunni.

Ýmis fyrirtæki hafa komið að umræddum framkvæmdum hingað til. Verkfræðifyrirtækin Mannvit og Efla eiga mikinn þátt í þeim ásamt verktakafyrirtækjunum Haka, Nestaki, Fjarðalögnum, Landstólpa og Héðni. Landstólpi annaðist byggingu nýja stálgrindarhússins og allur vélbúnaður er keyptur af Héðni og HPP eða í samstarfi við Héðin. Fleiri verktakafyrirtæki munu koma að framkvæmdunum síðar.