Hafþór Eiríksson hóf störf hjá Síldarvinnslunni hinn 14. mars sl. en hann hefur verið ráðinn verksmiðjustjóri fiskimjölsverksmiðjunnar í Neskaupstað.
Hafþór er borinn og barnfæddur Norðfirðingur, 36 ára að aldri. Hann er meistari í vélvirkjun og lauk námi í vél- og orkutæknifræði frá Háskólanum í Reykjavík árið 2008. Hafþór starfaði á vélaverkstæðinu G. Skúlason í Neskaupstað áður en hann hóf háskólanám en meðfram því námi starfaði hann hjá Marel. Á árunum 2009-2012 starfaði Hafþór hjá Launafli og á árunum 2012-2016 var hann viðhaldssérfræðingur hjá Alcoa-Fjarðaáli.
Aðspurður segir Hafþór að sér lítist vel á hið nýja starf. „Það er svo sannarlega mikið að læra til að byrja með. Í verksmiðjunni starfa reynslumiklir úrvalsmenn og þeir verða mér innan handar. Guðjón B. Magnússon, sem er að taka við starfi öryggisstjóra, mun starfa með mér fyrstu vikurnar og ég kem til með að njóta þekkingar hans. Mér finnst þetta vera virkilega spennandi starfsvettvangur og það er alltaf ögrandi og skemmtilegt að takast á við ný verkefni,“ sagði Hafþór.